Tuesday 20 July 2010

Kotasælubollur

kotasælubollur-2
Skellti mér í ferð um Reykjanesið á sunnudaginn og hóf ferðina á stoppi hjá systur minni í Grindavík. Hún bauð okkur upp á dýrindis humarsúpu og ég gat nú ekki mætt tómhent og þar sem ég vakna fyrir allar aldir þá byrjaði ég bakstur um 7 leytið. Afraksturinn, 1 lyftiduftsbrauð, ilmandi basil og hvítlauksbrauð og rómuðu léttu kotasælubollurnar sem ég ætla að gefa ykkur uppskriftina að.
1 þurrgerspakki
3 dl mjólk
dl kotasæla
1 dl matarolía
100 gr rifinn ostur
2 tsk herbamare
400 gr hveiti, skipt í tvennt
Blandið gerinu út í ylvolga mjólkina. Blandið matarolíu,osti,kotasælu og kryddi saman við.
Bætið 200gr af hveitinu út í. Breiðið klút yfir skálina og látið hefast í 30 mínútur.
Hnoðið hveitinu sem eftir er smátt og smátt út í deigið (ekki er víst að þörf sé á öllu hveitinu).
Skiptið deiginu í 15-20 bita. Mótið bollur og raðið á bökunarplötu(gott að hafa smjörpappír undir).
Látið svo hefast aftur í 30 mínútur. Penslið með mjólk eða eggi.
Bakið í 220 gráðu heitum ofni í 10mínútur.
kotasælubollur-1
Þessar bollur eru bestar nýbakaðar. Það er gott að frysta þær og hita þær síðan í ofni áður en þær eru borðaðar. Þær eru svo léttar og loftmiklar og passa einstaklega vel með súpum. Mér datt nú hug að það væri líka hægt að nota þær sem hamborgarabrauð.

Saturday 17 July 2010

Kjúklinga Pilau

Vorum í skapi fyrir indverskt í stíl við heitan og sólríkan dag.  Ég gæti vel borðað indverskan mat á hverjum degi. Hef stundum velt fyrir mér hvernig væri að skella sér til Indlands og borða indverskt frá morgni til kvölds. Set það á listann. Það væri örugglega ekkert leiðinlegt. Þessi réttur er yndislega ilmríkur og fullur fyrirheita um indverska drauma. Hrísgrjónin flauelsmjúk og kryddin umvefja mann. Ef þú vilt fara að elda meira af indverskum mat þá eru ýmis krydd alger grunnur. Kanilstangir,kardimommufræ,negulnaglar,cumin og kóríander,hvítlaukur og chili og engifer. Ég mæli með því að elda indverskt frá grunni. Indversku sósurnar í búðunum eru bara svo sorglega fjöldaframleiddar. Það er allt annað að taka til kryddin, hita þau á pönnu og finna ilminn og bragðið af alvöru indverskum mat. (svona eins og hægt er með íslensku hráefni 
kjúklinga pilau-2
Takið til þessi hráefni:
375 gr hrísgrjón
5 msk smjör
5sm kanilstöng
8 negulnaglar
6 kardimommufræ
5 pressuð hvítlauksrif
1 tsk chili duft
3-4 kjúklingabringur
5 msk hrein jógúrt
1 tsk saffran
1 1/2 tsk salt
600ml kjúklingasoð
Hitið olíuna í stórum potti og bætið kanilstöngum,negulnöglum og kardimommufræjum út í og steikið í 30 sek. Bætið hvítlauknum og chiliduftinu út í og steikið áfram í aðrar 30 sek. Setjið svo kjúklinginn út í og steikið í 5 mínútur, snúið bringunum reglulega. Bætið svo jógúrtinni út í 1 msk í einu. Setjið lokið á og látið malla í 25 mínútur.
Setjið hrísgrjónin út í ásamt saffran og salti. Steikið þar til þið sjáið að hrísgrjónin glansa og er vel þakin kryddi. Bætið kjúklingasoði út í og látið hylja hrísgrjónin rúmlega 5 mm yfir og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann nánast alveg niður og látið sjóða með lokinu á í 20 mínútur eða þar til hrísgrjónin eru tilbúin. Bætið soði út í ef þarf í lokin.
Berið fram með góðu mango chutney, raitu og fersku kóríander.

Sunday 4 July 2010

Vöfflur

Gömlu góðu vöfflurnar hennar ömmu minnar. Mmmm. Þar sem það er eiginlega ekki hægt að stynja á blaði þá þarf að gefa stununni sér setningu. Mmmmm.Þær eru góðar með smjöri, með rababarasultu og rjóma, með ís. Þetta eru vöfflur!  Ekki gráar og aumkunarverðar eftirlíkingar í pakka, ónei, þetta er "the real thing".

200 gr smjör,brætt
200 gr hveiti 
2 tsk lyftiduft
50 gr sykur
4 egg
1-2 tsk vanilludropar
mjólk ef þarf

Já þetta eru ríkar vöfflur af smjöri og eggjum og bragðið segir allt sem þarf. Ég geri nú ráð fyrir að allir viti hvernig þetta fer en setjið allt saman í skál og hrærið vel, deigið verður yndislega sumargult á litinn og áferðin eins og þykkt lím. Hitið vöfflujárnið vel og hellið deigi í járnið. Verði ykkur að góðu.

Bhuna Ghosht með kóríander og sítrónu

Fyrst  þegar ég bragðaði kóríander þá fannst mér hann bitur og afgerandi og það tók mig tíma að læra að meta hann. En í dag er þetta eitt af mínum uppáhalds kryddum. Nú finnst mér yndislegt að setja knippi af ferskum kóríander í salat. Þetta er ákaflega einföld uppskrift og svo sannarlega fljótlegasti indverski réttur sem ég hef búið til. Undirbúningur er frá 1-24 tímar :) það er sem sagt marineringin sem  hægt er gera klukkutíma áður en eldað en er enn betri ef kjötið er látið bíða í kæliskáp í sólarhring. En steikingin er einungis 5 mínútur.
750 gr svínalundir eða fille
2 msk kóríander fræ-grófmöluð í mortéli
1 tsk nýmalaður svartur pipar
1 msk paprikuduft
4 msk olía
salt
2 msk eða meira af ferskum kóríander til skrauts
sítrónubátar

 Skerið lundirnar í sneiðar. Stingið í bitana með gaffli. Blandið saman kóríanderfræjum,pipar,paprikudufti og salti og nuddið vel inn í bitana.Setjið í plastpoka og nuddið kjötið í gegnum pokann. Geymið á borði í 1 klst eða í kæli í sólarhring.







Hitið olíuna á pönnu, setjið kjötið á heita pönnuna og brúnið snöggt til að loka kjötinu.Lækkið hitann og steikið í 5 mínútur eða þar til það er gegnumsteikt, hrærið í til að það brenni ekki. Takið af hellunni og kreistið einn sítrónubát yfir kjötið.
 Með þessu bar ég fram hrísgrjón, gúrku og ferskt spínat með fersku kóríander og mangó. Gott að hafa sítrónubáta með og kreista yfir kjötið aftur ef þið viljið.
Það er engin sósa, kannski örlítið af soðsafa úr pönnunni sem ég hellti yfir salatið. Það er líka gott að hafa hreina jógúrt með. Þetta er réttur sem allir aðdáendur kóríander mega ekki láta fram hjá sér fara.



Tuesday 11 May 2010

Evróindófjúsjón samloka

Eftir annasaman dag þá er ég oft ekki í neinu skapi til að elda. Þegar hallar að sumri þá hallast ég að léttari mat, litríkari mat og fljótlegum mat. Ef veðrið er gott þá finnst mér synd að standa inni við heita potta, þess vegna grillum við mikið á sumrin og borðum oft salat. Þegar kemur að samlokum þá er nú oftast þær einföldustu bestar.
En stundum byrja ég að tína úr ísskápnum og held bara áfram. Þessi dregur innblástur sinn frá Evrópu og Indlandi. Nokkurs skonar evróindófjúsjón. Ég átti eldaðan sítrónubasilkjúkling síðan um helgina, lime chutney, ferskt kóríander og nokkur jarðaber. Mmm kjúklingur, brakandi beikon færi vel með því. Rauðlaukur til hrista aðeins upp í kjötinu, safarík eldrauð jarðaber sem sætu, ferskur parmesan kæmi sem selta á móti þeim. Brakandi iceberg salat og hvítlaukssósa sem bleytir brauðið að innan.
Hér kemur sem sagt innihaldið miðað við 1 samloku:

Gott brauð
Lime chutney
rauðlaukur skorin í ræmur
rifinn kjúklingur
2 beikon sneiðar
1 jarðaber
ferskur parmesan rifinn
pipar
ferskt kóríander
iceberg salat eða blandað salat
hvítlaukssósa

Brauðsneiðarnar eru létt ristaðar á pönnu í beikonfeitinni eða ólífuolíu. Önnur brauðsneiðin er svo smurð með lime chutney og hin með hvítlaukssósu.Svo er hráefnunum raðað ofan á.Piprað létt yfir.   Helmingunum svo skellt saman og þrýst saman. Leyft að samlagast í nokkrar mínútur. Á mínu heimili þykir það nauðsynlegt að "soggía" samlokurnar svo þær séu smá blautar að innan en stökkar að utan.

Við vorum eins og hungraðir úlfar og átum eftir því. Ég verð samt að segja að þetta var vel heppnuð samloka og þrátt fyrir að borða hana allt of hratt þá komst bragðið vel til skila. 

Verði ykkur að góðu!

Wednesday 5 May 2010

Papriku chili bananamauk



Við vorum að grilla kjúklingabringur og mig langaði svo í eitthverja sterka sósu með. Ég átti einhverra hluta vegna óvenjumikið af rauðum paprikum svo ég ákvað að skella þeim undir grillið í ofninum og töfra svo einhverja sósu úr maukinu af þeim. Hér kemur afraksturinn:
 3 rauðar paprikur
4 hvítlauksgeirar
2 rauðir ferskir chili
2 vel þroskaðir bananar
1/2 dós ananas
3 msk ananassafi
2 msk sítrónusafi
2 tsk paprikuduft
1 1/2 tsk chiliduft
1 stór tsk salt
2 msk rauðvínsedik

Stillið ofninn á grill.  Skerið endann af paprikunni og takið innan úr þeim. Skerið hverja papriku í 2 lengjur og notið hendurnar til að pressa þær niður í borð. Setjið bökunarpappír á plötu og paprikuræmurnar á pappírinn.
Dreifið smá ólífuolía yfir paprikurnar. Látið húðina snúa upp. Skellið inn í ofninn undir grillið og hafið inni þar til þið sjáið að húðinn er byrjuð að flagna og jafnvel brenna. Takið þá plötuna út og setjið paprikuna í skál með loki yfir eða í lokaðann poka. Það hjálpar til við að losa húðina. Leyfið paprikunni að svitna í skálinni í 10-15 mínútur.Takið hana þá upp úr og með beittum hníf losið þið húðina af paprikunni.

Saxið hvítlauk,chili, banana og paprikurnar gróft. Hendið öllu saman með kryddi og vökva í moulinex og blandið þar til úr verður þykkt mauk. Smakkið til og bætið chili ef þarf. Þetta geymist vel í lokaðri krukku í viku -10 daga. Smakkast mjög vel með öllum grillmat. Þetta varð eiginlega strax svona uppáhaldssósa með öllu mögulegu. Ég mana ykkur til að prófa hana. :)

Súkkulaðibita muffins



Það góða við heimabakstur er að þú veist að það eru engin aukaefni sem þú þekkir ekki, engin rotvarnarefni sem halda kökunum ferskum í mánuð. Það er hreinlega ekkert girnilegt við að borða muffins úr búð en aftur á móti heimabakaðar muffins, það er allt annað mál. Þær lyfta sér vel og eru einar og sér dásamleg lítil súkkulaðikaka. Krakkar elska þær líka. Miðað við súkkulaðimagnið hvernig væri annað hægt.Það er svo fljótlegt að baka muffins, ég held að það sé með því fljótlegra sem hægt er að gera. Þegar vanir heimabakarar segja: hvað þetta tekur enga stund! Þá er nú yfirleitt ekkert að marka það, vaninn býr til fljótar hendur. En þetta er ekkert ýkt þegar kemur að muffins gerð. Engin þeytari, hrærivélar eða flóknar formúlur. Það besta er að það fer lítið fyrir þeim, það er hægt að stafla þeim,skella í box eða poka án mikillar fyrirhafnar. Ef muffins mótið er tekið með í sumarbústaðinn þá er þetta þægilegasti og fljótlegasti bakstur sem þú tekur þér fyrir hendur. Þær frystast líka vel. Þessi uppskrift dugar í 12 stk muffins form.
súkkulaði muffins-4
1 3/4 bolli hveiti
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
2 msk gæða kakó
3/4 bolli sykur
3/4 bolli suðusúkkulaði í bitum
1/4 bolli suðusúkkulaði í bitum til að setja ofan á
Blandið öllu saman í skál nema 1/4 bolla súkkulaðinu
1 bolli mjólk
3/4 bolli + 2msk grænmetisolía
1 egg
1 tsk vanilludropar
Hrærið blauta hráefninu saman í annarri skál. Blandið svo þurru og blautu saman. Munið að deigið á að vera kekkjótt.  Setjið í muffins mót og setjið restina af súkkulaðinu yfir. Bakið við 205 gráður í 20 mínútur í miðjum ofni.súkkulaði muffins-3



Sælkeraönd með púrtvíns gráðostasósu, grillaðar sætar kartöflur með þurrkuðum trönuberjum og pekan hnetum,grænt salat



ond 1









Okkur hjónunum  áskotnaðist 2 franskar endur fyrir lítinn pening og ég lagðist í rannsóknarvinnu þar sem ég hef aldrei eldað önd áður. Við ákváðum að snæða aðra þeirra strax þrátt fyrir að ekkert væri tilefnið. Ég breytti uppskriftinni, að sjálfsögðu ;)    þeir sem elska Dijon sinnep geta notað það en ég notaði bara ódýrt sinnep úr Krónunni sem mér finnst nú bara alveg æði og það heitir Polsemaker Bergbys sennep- sterk polsesennep etter god gammel oppskrift. Sterk og grov. Öndin var mjúk og safarík, bragðið var alveg framúrskarandi gott og kartaflan og salatið kórónuðu upplifunina. Þar sem ég bjóst ekkert við miklu kom þetta mér þess meira á óvart, stunurnar sem komu upp úr okkur hafa örugglega sannfært leigjendurna okkar um að athafnir okkar kæmu mat ekkert við ;)
Sælkeraönd f.4
7 kílóa önd, þiðin (háls,hjarta og innyfli tekin með)
1 meðal laukur skorin í fernt
1 gulrót grófsöxuð
1 sellerístilkur grófsaxaður
4 1/2 bolli vatn
Skerið vængina af öndinni og setjið innyflin öll með vængjunum í stóran pott.Bætið grænmetinu og vatninu út í og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og látið malla í klukkutíma. Sigtið soðið frá í minni pott og látið það sjóða í c.15 mínútur eða þar til það hefur minnkað niður í c.1 bolla.ond 2
2 msk smjör
8 stórir hvítlaukgeirar,sneiddir
1 bolli púrtvín
1 msk hveiti
1/3 gráðostur
2 msk kornótt sinnep (Bergbys sterk polsesinnep í gulum brúsa)
andakraftur ef þarf
Bræðið  1 msk af smjöri í potti yfir meðalhita og bætið hvítlauk við og steikið þar til hann er gylltur,um 2 mín.Bætið púrtvíni út í og sjóðið í 5 mínútur.Bætið soðinu út í og sjóðið þar til það minnkar um helming, um 8 mínútur.Blandið restinni af smjörinu við hveitið í lítilli skál þar til úr verður smjörbolla.Hrærið út í sósuna og sjóðið þar til þykknar,1 mín.Bætið gráðosti og sinnepi út í, blandið vel saman og smakkið til. Ef krafturinn í soðinu er of máttlaus þá má bæta andakrafti út í. Bragðbætið með pipar og salti.(ef þið notið andakraft þá þarf nú sennilega ekki salt)
Anda marinering.
1/3 bolli sæt soja sósa
3 msk sinnep Bergbys aftur
4 hvítlauksrif,pressuð
1 tsk salt
1tsk malaður svartur pipar
1 tsk timian
Hitið ofninn í 205 gráður. Skerið alla auka fitu ef hún er af öndinni. Notið gaffal til að stinga í öndina á nokkrum stöðum. Blandið sinnepi og hvítlaukmauki saman í skál. Blandið kryddi saman í aðra skál. Penslið sojasósunni yfir alla  öndina, næst fer sinnepshvítlauksmaukið yfir og að síðustu dreifið þið kryddinu yfir öndina og inni í hana. Setjið öndina í ofnpott og látið bringuna snúa upp. Setjið pottinn í ofninn án loks og eldið í 45 mínútur. Snúið þá öndinni við og eldið hana í 30 mínútur.Snúið henni aftur við og eldið áfram í c.15 mínútur í viðbót.  Það sauð ekki svo mikið niður hjá mér soðið fyrir sósuna svo ég notaði soð til að hella yfir öndina eftir fyrstu 45 mínúturnar og notaði svo það sem rann í ofnpottinn til að hella aftur yfir öndina nokkrum sinnum það sem eftir var eldunartímans.
Bakaðar sætar kartöflur fylltar með trönuberjum,perum og pekan hnetum. 4stk
4 sætar kartöflur, meðalstórar
1 bolli þurrkuð trönuber
4 msk smjör
2 þroskaðar en stífar perur,skrældar,steinhreinsaðar og skornar í 1.5sm teninga
1 bolli pekan hnetur grófsaxaðar
4 tsk ferskur engifer,skrældur og rifinn
4 tsk púðursykur
2 tsk+ 1 1/2 msk balsamik edik
1/2 tsk salt
Hitið ofninn í 200 gráður. Stingið nokkur göt á hverja kartöflu með gaffli og setjið á ofnplötu í ofninn.Bakið þar til kartöflurnar eru mjúkar  að innan.Um klst. (þarna fer að sjálfsögðu eftir því hve stórar kartöflurnar eru, reynið að finna eintök sem eru svipað stórar og stórar bökunarkartöflur. Á meðan getið þið sett trönuberin í litla skál og hellt sjóðandi heitu vatni yfir,rétt nóg til að hylja þær.Látið þær mýkjast í vatninu í 5mínútur, sigtið svo vatnið frá. Bræðið 2 msk af smjöri í potti yfir meðalhita,bætið perunum út í og látið þær mýkjast í 4 mín.Bætið trönuberjunum, pekan hnetunum,engiferi og púðursykri út í og steikið í 1 mínútu. Blandið 2 tsk af balsamik og saltinu út í og hrærið vel saman. Þegar kartöflurnar hafa kólnað eilítið eftir að þær komu úr ofninum þá skerið þið 1/4 af þeim ofan frá,eins konar hatt og hendið honum frá. Notið skeið til að grafa mest af soðnu kartöflunni úr skelinni og setjið í skál. Passið að kartaflan sé eftir sem áður heilleg. Kryddið með salt og pipar og setjið 2 msk af bræddu smjöri og restinni af balsamik edikinu saman við kartöflumúsina. Setjið svo músina aftur í kartöflurnar og setjið trönuberja blöndu á hverja kartöflu.
Það er hægt að útbúa kartöflurnar  allt að 4 tímum áður, setjið bara plast filmu yfir og látið bíða við stofuhita.Svo er hægt að hita þær upp í ofninum í 10-20 mínútur.  Ég bakaði kartöflurnar fyrst og setti svo öndina inn. Með þessu bar ég fram einfalt blandað grænt salat.
Yummi!

Fiskiréttur Enriques



Þetta er algert gúmmulaði. Ljúffengur þorskur með salsa rjómaostasósu. Mjög fljótlegt og mjög gott.senor sanchez-2
Soðið bygg eða hrísgrjón
3 rauðar paprikur, skornar í ræmur
1 rauðlaukur, skorinn í bita
1 askja sveppir, skornir í fernt
700 gr þorskhnakkar
200 gr rjómaostur
1 dós Enriques hot salsa (fæst í krónunni er stærri dós en venjuleg salsa og ódýrari)
1 lítil ananasdós og safinn
1 bréf rifinn pizzaostur
Bygg sett í botninn á eldföstu móti. Paprikur,laukur og sveppir snöggsteikt á pönnu og helmingur settur yfir byggið. Skerið þorskhnakkana í bita og raðið ofan á. Setjið restina af grænmetinu yfir og svo ananasinn en haldið eftir safanum. Blandið rjómaosti,salsa og ananas safanum saman. Gott að mýkja rjómaostinn eilítið í örbylgjuofni fyrst. Blandið þessu vel saman og hellið síðan yfir. Setjið rifinn ost yfir allt saman og bakið í ofni í 30 mín við 200 gráður. Það verður að nota hot salsa sósu í þennan rétt.

Kleinur og lopapeysur


kleinur-6Kleinur, lopapeysur, mjólk og gamaldags stell. Allt svo íslenskt og minnir mig á ömmu.  Ég borða þær sjaldan en þær eru eitt uppáhalds bakkelsið mitt. Það tók mig nokkrar uppskriftir og mörg ár að læra að búa til kleinur sem ég var ánægð með. Takið með í reikninginn að ég bý til kleinur kannski annað hvert ár svo ég er ekki svona treg ;) . Ég byrjaði með aðra uppskrift,  flatti deigið of þunnt, skar það of langt,  svo úr urðu stökkar kexkleinur með olíubragði.  En þessi uppskrift! Hún slær alltaf í gegn. Frábærar kleinur.
1.2 kg hveiti
250 gr sykur
1 tsk hjartarsalt
6 tsk lyftiduft kúfaðar
4 egg
1 peli rjómi
tæpl 5 dl mjólk+ súrmjólk
2 tsk kardimommudropar
1 dl olía
Þetta gerir c.80-90 kleinurkleinur-1
Allt sett í stóra skál og blandað vel saman, sett á hveitistráð borð og hnoðað þar til deigið verður þjált. Hafið hveiti til taks og bætið út í eftir þörfum. Flatt út og haft c.2-3 cm þykkt og skorið út með kleinuhníf.  kleinur-2Snúið í litlar klaufakleinur og geymið á hveitistráðum bökkum þar til þeir steypa sér í ánna.kleinur-3Mér finnst alltaf eins og ég sé að senda þær í stríð. Hitið Kristjáns steikingarfeiti, já það verður að vera Kristjáns steikingarfeiti, þar til hún er vel heit og byrjið að steikja. Ég hita olíuna hægt þar til hún nær góðum hita og byrja þá að steikja, eftir nokkrar umferðir lækka ég kannski hitann um 1-2 í smástund og hækka svo aftur. Það skiptir máli að þær verði gullnar og ekki of dökkar. Það var eiginlega viðeigandi að ég hóf bakstur fyrir hádegi og veðrið var sneypulegt og úti var dimmt og ég vann við litla dagsbirtu framan af. Svo þegar steikingu var næstum lokið þá gægðist sólin upp yfir næsta hús og skein inn í eldhúsið hjá mér og lýsti upp kleinustaflana fyrir mig. Þar sem ég reyni alltaf að nota bara dagsbirtu þegar ég mynda mat/bakstur fannst mér þetta einstaklega ljóðrænt. Það var svo gaman að sjá þessar linu lufsur umbreytast í rómantískar gylltar kleinur.  Ilmurinn einn og sér dugði mér næstum því. Ég greip myndavélina og fangaði  sólargeislana áður en þeir hurfu og settist svo út í glugga með kleinu og kalda mjólk. kleinur-7Verði ykkur að góðu!

New York ostakaka


Ottó elskar ostakökur. Hann lætur allt annað bíða á veisluborðinu ef ostakaka er í boði. Hann fann þessa uppskriftá síðunni  Cooking for engineers ,þar er allt skráð skref fyrir skref og engin uppskrift látin fara fyrr en hún hefur verið þrautreynd. Þetta er hreinræktuð ostakaka, hún er kremuð og mjúk og kennd við New York.  Þetta er stór kaka svo ég mæli ekki með að þú bakir hana bara fyrir þig, ja ekki nema þú hafir lent í áfalli og þurfir nokkurra daga osta svallveislu til að jafna þig.
New York ostakakaOstakakan þarf tíma og alúð svo þú þarft að gefa þig allan í gerð hennar. Þetta er enginn skyndibiti.  Lestu alla uppskriftina áður en þú hefst handa. Ostakakan verður flauelsmjúk upp í þér, sæt og rjómakennd og ég mæli með henni einni og sér eða með hindberjasósu sem mótvægi við sæta bragðið.
Botninn samanstendur af 110 gr graham kexi, 55 g af bræddu smjöri og 12 gr(1msk) af sykri. Merjið kexið í poka með hamri eða setjið í moulinex í nokkrar mínútur. Bræðið auka msk af smjöri  til að smyrja botninn á 25 sm smelluformi.Blandið muldu kexinu við 55gr brædda smjörið og sykurinn svo það sé blautt og setjið í botninn . Þjappið mulningnum vel í botninn á forminu, það er hægt að nota sléttan botn á glasi eða skeið til að þjappa yfir svo það sléttist vel. Passið að ytri brún botnsins nái örlítið upp.  Hitið ofninn í 160 gráður og bakið botninn í 12 mínútur.  Látið formið kólna á grind og setjið smá brætt smjör (1/2 msk) meðfram ytri brún botnins.ny cheesecake-2-2
Þá er komið að fyllingunni.  Takið til 1.1 kg af rjómaosti, 1/8 tsk salt, 350 gr sykur,23 g hveiti,2 tsk sítrónusafa,1 tsk vanilludropa,120ml rjóma, 2 stórar eggjarauður (34gr), 6 stór heil egg.ny cheesecake-1-2
Skerið rjómaostinn í  bita og setjið í hrærivél, látið vélina vinna í hægum gír þar til osturinn mýkist, c.2-3 mínútur. Það gæti verið gott að setja helminginn fyrst og svo restina þar sem þetta er svo mikið. Þegar osturinn er orðinn mjúkur þá bætið þið við saltinu og 1/3 af sykrinum. Hrærið þar til sykurinn hefur samlagast vel og bætið öðrum þriðjung út í, notið sleikju til að renna meðfram skálinni að innan svo allt blandist vel saman. Setjið síðasta þriðjunginn út í og hveitinu í leiðinni. Hveitið kemur í veg yfir að yfirborð kökunnar bresti. Bætið svo sítrónusafanum og vanilludropunum út í. Hrærið. Notið sleikjuna til að losa meðfram innan í skálinni og bætið svo rjómanum út í. Osturinn ætti að vera mjög mjúkur núna. Bætið svo eggjarauðunum út í og blandið þar til það samlagast.  Næst fara 3 heil egg og hrærið þar til þau eru alveg blönduð og að lokum síðustu 3 eggin.ny cheesecake-3
Blandan ætti að vera fölgulleit á lit og þunn þegar hér er komið við sögu. Hellið blöndunni ofan á botninn í smelluforminu, lyftið forminu örlítið upp frá borðinu og skellið því svo á borðið, þetta ætti að koma í veg fyrir að loftbólur myndist inni í kökunni. ny cheesecake-4Setjið svo formið á bökunarklædda plötu og setjið í miðjan forhitaðan ofn  við 260 gráður og bakið í 10 mínútur. Ekki opna ofninn! Lækkið hitann í 90 gráður og bakið áfram í 100 mínútur eða þar til hiti kökunnar er orðinn 65 gráður (notið kjöthitamæli).
Takið ostakökuna út úr ofninum og setjið formið á grind. Eftir c. 10 mínútur þá skulið þið nota borðhníf til að renna meðfram ytri brún kökunnar. Þetta hjálpar til þegar þið losið svo smelluformið að ekkert festist við formið. Setjið disk eða aðra bökunarplötu yfir formið, rakinn helst þá inni í forminu og hægir á kulnunarferlinu. Eftir 2-3 tíma þá er óhætt að setja plastfilmu yfir formið og setja í kælinn. Kakan þarf að sitja í kæli í alla veganna 5 tíma áður en hún er borin fram. Hún er ekki alveg tilbúin fyrr en þá. Takið kökuna úr kæli 30 mín áður en þið ætlið að borða og skerið sneiðar með beittum hníf, gott er að stinga hnífnum í volgt vatn á milli sneiða til að skurðurinn gangi snurðulaust.
Ég ber kökuna oft fram með hindberjasósu. Ég skelli frosnum hindberjum í blandarann og þegar þau eru orðin að mauki þá set ég flórsykur út í og blanda þar til góð sósa er til. Flórsykurinn er eftir smekk en mér finnst gott að sósan sé örlítið súr.  Enjoy!
ny cheesecake-1

Stökkar og bragðmiklar indverskar kjötbollur


Karrý kjötbollur
Ég og Ottó fengum indverska matar fullnægingu þegar við brögðuðum þennan rétt. Hann er svo látlaus að sjá en “oh boj!” hann hreinlega strýkur bragðlaukana á dónalegan hátt. Myntulaufin eða kóríanderlaufin eru ekki bara skraut, þau setja punktinn yfir i-ið. Við djúpsteikjum aldrei neitt svo ég var hikandi að gera það en rétturinn verður ekki eins nema það sé gert. Djúpsteikingin gerir bollurnar nógu stökkar til að þola suðuna eftir á. Þær verða stökkar að utan en algert gúmmulaði að innan. Ég held ég hafi aldrei elskað nautahakk jafn mikið.
Ég mæli með hrísgrjónum, naan brauði, gott chutney með þessum rétt og hreina jógúrt fyrir þá sem þurfa að kæla munninn. Annars getum við borðað þetta eintómt. Snilldar uppskrift með hversdagslegu hráefni.
500gr nautahakk
2 stórir laukar,fínsaxaðir skipt í tvennt
6-7 hvítlauksrif, pressuð skipt í tvennt
2 tsk turmerik
2-3 tsk chili duft
2 tsk kóríander duft
1 1/2 tsk cumin duft
1 tsk engifer duft
2 tsk salt
kryddi blandað saman og skipt í tvennar skálar
1 egg,hrært
grænmetisolía til að djúpsteikja
125g smjör eða 2 msk grænmetisolía
200 ml vatn
myntu eða kóríander lauf til skreytingar og bragðauka ;)
Setjið allt hakkið, og takið nú eftir! -helminginn af lauknum,hvítlauknum og kryddi saman í skál. _MG_2919Hrærið því vel saman, setjið eggið út í og svo kemur uppáhalds iðjan mín og það er að kreista hakkið og allt gumsið vel saman þar til það verður meðfærilegt og hægt að móta auðveldlega úr því kúlur. Það á ekki að þurfa að bæta neinu út í. Mótið 12 kjötkúlur úr deiginu._MG_2923Setjið næga olíu í pott svo hægt sé að djúpsteikja bollurnar. Steikið nokkrar bollur í einu í c.5 mín. Takið þær upp úr og látið olíuna leka af þeim á eldhúspappír og setjið svo til hliðar. Nú er komið að hinum helmingnum af lauknum og kryddunum!Hitið olíuna í stórri pönnu, setjið restina af lauknum og hvítlauknum og steikið ljúflega í 4-5 mínútur þar til hann er farinn að verða glær. Bætið þá kryddunum út í og steikið í 3 mínútur, hrærið stöðugt. Bætið steiktu kjötbollunum út í og passið að kryddblandan hylji þær allar að einhverju leyti. Bætið svo vatninu út í og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og látið malla við lágan hita í 30 mínútur. Stráið annað hvort ferskri myntu eða kóríanderlaufum yfir og berið fram. Ég lofa því að þeir sem vilja bragðmikinn og/eða indverskan mat verða ekki sviknir af þessum rétt.
_MG_2944
Þetta nægir fjórum.
Undirbúningur 30 mínútur
Eldamennska 40 mínútur.
Verði ykkur svo sannarlega að góðu ;)

Tuesday 3 November 2009

Hnetuhleifur með rauðri sósu





Ég hef aldrei búið til hnetusteik áður en hef hins vegar búið til alls kyns grænmetisbuff og bollur.  Ég rakst á uppskrift í veislubók Nóatúns en aðlagaði hana örlítið. Ég fer ekki endilega út í búð til að kaupa akkúrat það sem er gefið upp í uppskriftum, reyni frekar að nýta það sem ég á til í skápunum.
 
300 gr hnetur
 (ég notaði blöndu af kasjúhnetur,möndlum,pistasíum og jafnvel 10 gr af sesamfræjum)
1 stór laukur fínsaxaður
1 rauð paprika fínsöxuð
1 askja sveppir fínsaxaðir
3 hvítlauksrif saxaðir
180 gr rifinn ostur
(gefið upp cheddar en ég notaði bara pizzaost ;)
40 gr parmesan
það væri auðvitað best að nota ferskan en ég notaði bara krukkuost í þetta skiptið
80 gr byggmjöl
eða heilhveiti
1 egg slegið
salt og pipar eftir smekk

Steikið lauk og sveppi á pönnu ásamt hvítlauknum í nokkrar mínútur þar til laukurinn verður glær, ekki brúna hann. Kælið. Smyrjið eldfast form sem er 14x21 sm og klæðið það með bökunarpappír. Setjið hneturnar í matvinnsluvél, malið þær en passið að þær verði ekk alveg að mauki. Blandið saman sveppablöndunni,hnetunum,ostinum,parmesan,eggi og byggmjöli í skál og hrærið vel saman.

 


Kryddið með salti og pipar, setjið í formið og bakið við 180 gráður í 45-60 mínútur. Látið steikina standa í 5-10 mínútur áður en hún er borin fram. Lyftið steikinni með bökunarpappírnum og setjið á disk.













Tómatsósa
 1 laukur fínsaxaður
1-2 msk extra virgin ólífuolía
2 hvítlauksgeirar pressaðir
1 dós tómatar
1 msk tómatpúrra
1 tsk sykur
Steikið laukirnn og hvítlaukinn í olíunni í 3 mínútur eða þar til glær, bætið restinni út í og sjóðið í 5 mínútur.


Með steikinni bar ég fram ofnbökuð epli, ferskt salat og baunir.  Bon apetit!



Wednesday 28 October 2009

Beyglur með rauðlauksosti, skinku og spínati


Þetta er ákaflega einfalt en svo gott.  Hrærið saman rjómaosti og söxuðum rauðlauk, blandið þurrkuðum basil við og svörtum pipar. Smyrjið ristaðar beyglur með ostinum, setjið skinku og spínat yfir. Ég er yfirmáta hrifin af lauk og þess vegna elska ég þennan rauðlaukost.

Forskot á jólabaksturinn Krúsakökur

 

             


2 1/2 bolli hveiti
2 bollar haframjöl
2 bollar sykur
250 gr smjörlíki/smjör mjúkt
2 egg
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1 bolli saxaðar rúsínur
200 gr súkkulaði saxað


Þurrefnunum blandað saman í skál, eggjum,smjöri er blandað við. Mér finnst best að nota fingurna í þessa vinnu. Kreista og klípa deigið þannig að smjörið og eggið bindi restina vel saman. Hnoðað og svo mótað í nokkrar aflangar jafnar lengjur og sett í kæli. Ég geri deigið oft að kvöldi og baka svo daginn eftir. Skera lengjurnar í jafna bita, móta bitana með fingrunum og setja á bökunarklædda ofnplötu. Þær stækka töluvert í ofninum svo það borgar sig að hafa nægt rými á milli þeirra.
Best er að baka þær í miðjum ofni við 175 gráður í 10 mínútur.
 
Þessar kökur eru betri ef þú bakar þær ekki of lengi, hafa þær ljósar þegar þú tekur þær út, þá eru þær stökkar að utan en "chewy" að innan. Það verður bara að prufa sig með fyrstu plötuna því þetta fer allt eftir því hve stórar kökurnar eru. Í þetta sinn gerði ég þær reyndar risastórar eins og bakarískökur svo þær voru 25 mínútur í ofninum og  voru um 4 sm að þykkt þegar ég setti þær inn.

Verði ykkur að góðu!


Sparnaðarskinka

Mér finnst svo blóðugt að kaupa skinku í bréfi sem er hálft bréf vatn og kílóverðið á við fínasta nautakjöt. Svo við hjónin fjárfestum í ódýrum skurðarhníf fyrir 2 árum,hann borgaði sig upp eftir 3 skinkur. Ég hef aldrei verið hrifin af þessarri farslíku brauðskinku sem seld er í búðum heldur alltaf litið hýru auga til betri skinku. Sú er auðvitað seld örfá stk í bréfi á himinháu verði. Við grípum því alltaf til þess ráðs að kaupa góða skinku þegar hún er á tilboði og sjóðum,sneiðum og frystum. Kílóverðið er að minnsta kosta 1000kr lægra og við fáum skinku sem bragð er af. Það er alltaf plús í mínum kladda að þú finnir skinku bragð af skinkunni.

Monday 26 October 2009

Eggjakaka með rauðlauk,beikoni og bönunum


 4 egg
1/2 rauðlaukur saxaður
3 beikonsneiðar steiktar og saxaðar
hálfur banani í sneiðum
4 tsk af kryddjurtaosti eða rjómaosti

Eggin hrærð saman. Örlítil olía hituð á pönnu og rauðlaukurinn steiktur þar til hann verður mjúkur. Eggjunum hellt yfir, beikonbitunum stráð yfir og 4 klípum af rjómaosti. Bananasneiðum raðað yfir allt saman.
Magnið miðar við litla ommelettupönnu.
Verði ykkur að góðu!

Sunday 25 October 2009

Eggaldin tortilla með byggsalati og kotasælu


Ísskápurinn er hálftómur og þá er góður tími til að hreinsa til. Taka út allar krukkurnar og skoða hvað er enn í lagi. Henda ónýtum mat og útrunnum sósum. Og fara svo að kaupa inn.
Þetta var afgangur úr hinu og þessu. Hálft eggaldin, rest af tómat tapenade frá Sacla, kotasæla á síðustu metrunum og gamla góða byggið.

Ég elska bygg. Þetta ástarsamband hófst í vor og logar enn. Ég borða næstum aldrei hrísgrjón eða venjulegar kartöflur lengur en byggið kemur í staðinn fyrir...ja allt. Það er ódýrt og hreinlega þjófstartar meltingunni hjá manni sem er aldrei slæmt. Ég sýð yfirleitt 4 dl af byggi í 12 dl af vatni og hendi einum grænmetisteningi út í. Læt suðuna koma upp, lækka og læt sjóða í 15 mínútur með lokinu á en slekk svo undir og læt það bíða í 8 tíma eða yfir nótt.(það er líka hægt að sjóða í 40 mínútur og þá er það tilbúið. Þetta magn dugir okkur Ottó vel í nokkra daga.  Ég  bæti svo hinu og þessu út í eða ber það eins og er. Það sparar mikinn tíma þegar til lengdar er litið að vera með byggið. Það geymist soðið í ísskáp í viku. Svo tek ég bara hluta út, bý til salat úr því eða hita það og bæti kannski elduðu grænmeti við.

Að þessu sinni skar ég niður tómata og reif niður parmesan og blandaði saman við og pipraði smá. Blandaði smá sítrónusafa,olíu og balsamic dropa saman og hellti yfir.

Makaði tómat tapenade  á eggaldinsneiðarnar og steikti á pönnu. Setti svo kotasælu á helming tortillunnar, svo eggaldin og endaði með bygginu. Tilbúið!

Hafragrautur og bananar

Ég gleymi því aldrei hve illa mér var við hafragraut í æsku. Mamma reyndi hvað eftir annað að koma honum ofan í mig. Þykkur vellingur, ósætur með mjólk var álíka óspennandi og að borða kork. Svo ég tali ekki um allar bækurnar sem ég hafði lesið þar sem hafragrautur kom við sögu, alltaf var hann þykkur, vondur og hreinlega eins og búinn til fyrir fátæk börn. Ég spurði mömmu auðvitað hvort við værum fátæk, ég held hún hafi samt aldrei tengt þessa spurningu mína við morgunmatinn. Það var ekki fyrr en ég var í Noregi að sumarlagi að vinna við garðyrkju sem mér tókst að taka hann í sátt. Við vorum 4 vinkonurnar og ætluðum að spara hverja krónu svo við ættum nógan pening yfir veturinn í skólanum. Hluti af þeim sparnaði var að borða hafragraut í hvert morgunmál. Mín lausn við þessum viðbjóði var að salta,sykra og þynna grautinn vel. Smám saman tók ég hann í sátt þar til ég borðaði hann með bestu lyst og saknaði hans hreinlega þegar ég var komin heim til Íslands og byrjuð í skólanum aftur.  Í dag get ég borðað grautinn eins og hann er, án sykurs og salts en hver er hamingjan í því? Krydd í tilveruna. Það er nokkuð til í því. Það þarf ekki mikið til svo úr fábrotnu hráefni verði meistaramatur.

Hafragrjón og vatn eru sett í pott, magnið fer eftir því hve þykkan þú vilt hafa grautinn. Það er alltaf hægt að bæta vatni í .Salt fyrir þá sem vilja.
Soðið í nokkrar mínútur. Sett í skál og þurrkuð trönuber og sneiddir bananar settir út í. Kanil stráð yfir.

Það er hægt að vera skapandi og nota hvaða ferska eða þurrkaða ávexti sem er.
Börnin eru sérstaklega hrifin af því að sjá liti og formin ofan á  líka, ekki bara falið inni í grautnum.
Svona er hægt að elska hafragraut, sætan og fallegan og allt með náttúrulegum sykri. Nammi namm....

Sá stutti fer bráðlega að smakka hafragrautinn en lætur sér nægja bananann þangað til.

Njótið!